Viðskipti innlent

Ákveðið að hefja framkvæmdir við Sauðárveitu

Stjórn Landsvirkjunar hefur tekið ákvörðun um að hefja framkvæmdir við Sauðárveitu, og hefst vinna í sumar við vegagerð og aðstöðusköpun. Stefnt er að því að framkvæmdum ljúki haustið 2012.

Í tilkynningu segir að um sé að ræða veitingu Innri-Sauðár og Ytri-Sauðár í Grjótárlón, en þær eru tvær austustu árnar á virkjunarsvæði Hraunaveitu.

Samkvæmt upphaflegum framkvæmda­áformum átti að gera þessar veitur á árunum 2008 og 2009 en framkvæmdum var frestað vegna óviss efnahagsástands og að ekki var talin bráð þörf fyrir vatnið frá þessum ám vegna orkuframleiðslu í Fljótsdalsstöð.

Aukning orkugetu vegna þessara framkvæmda er áætluð um 40 GWst á ári, en til samanburðar má geta að á síðasta ári framleiddi Fljótsdalsstöð um 5000 GWst. Þó svo að aukningin sé lítil þá er um að ræða dýrmætt vatn sem eykur nýtingu miðlunar í Hraunaveitu og minnkar töp í vatnsvegum Kárahnjúkavirkjunar.

Auk þess kemur rennslið aðallega fram á öðrum árstímum en þegar jökulbráðnun er í hámarki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×