Viðskipti innlent

Volkswagen ekki selst jafn illa í 40 ár

Breki Logason skrifar
Nýir bílar frá Volkswagen hafa ekki selst í jafn litlum mæli hér á landi í tæp 40 ár, á meðan salan í löndunum í kringum okkur er á uppleið. Sölustjóri framleiðandans í Evrópu segir fólk halda að sér höndum vegna þess óvissuástands sem hér ríki.

Thomas Mills hefur unnið hjá Volkswagen í tuttugu ár og hefur komið þrisvar sinnum hingað til lands. Hann segir að í kjölfar efnahagskreppunnar hafi salan fallið úr 10 til 12 þúsund bílum á ári niður í um tvö þúsund nú.

„Slíkt hefur ekki gerst á Íslandi síðan 1972. Svipað var upp á teningnum á markaðnum í Hollandi þar sem um 500 þúsund bílar seldust árið 2009 en bílasala fór niður í um 300-380 þúsund bíla á ári," segir Mills.

Hinsvegar sé nú gert ráð fyrir að 550 til 600 þúsund bílar verði seldir í Hollandi en svipuð aukning er að eiga sér stað í löndunum í kringum okkur.

En hversvegna telur Thomas að svo fáir bílar séu að seljast hér á landi?

„Ég tel að hugarfarið spili hér inn í. Ástandið er þannig að fólk finnur til óöryggis, fólk veit ekki hvað gera skal og hver staðan verður í næstu viku,“ segir Mills. Hann bætir við að atvinnuleysi sé hátt hér á landi og fólk ákveði því að eiga bílana sína lengur.

Hann er þess þó fullviss að sala á nýjum bílum aukist á næstunni og nefnir þar nýja tækni eins og framleiðslu á metanbílum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×