Viðskipti innlent

Tap hjá Icelandair en afkoman batnar þó

Heildarvelta Icelandair á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var 16 milljarðar og hefur dregið úr veltunni um 2% á milli ára. Tap félagsins eftir skatta nam 1,1 milljarði króna en á sama tíma í fyrra var tapið 1,9 milljarðar. Björgólfur Jóhannsson forstjóri félagsins segir að dregið hafi úr tapinu þrátt fyrir miklar hækkanir á eldsneytisverði. „Olíuverð var að meðaltali 42% hærra núna en á fyrsta fjórðungi síðasta árs. Kostnaðarhækkun samstæðunnar vegna þessa nemur um 0,8 milljörðum. Í ljósi ytri aðstæðna erum við sátt við afkomu ársfjórðungsins," segir Björgólfur.

Hann segir að framboð í alþjóðlegu farþegaflugi hafi verið aukið um 12% á milli ára og jókst farþegafjöldi um 13%. „Farþegaaukning varð á öllum okkar mörkuðum þó mest á Norður-Atlantshafsmarkaðnum um 20%. Sætanýting Icelandair var sú hæsta sem áður hefur mælst á þessu tímabili eða 71%. Bókunarstaða fyrir komandi mánuði er góð og stefnir í metfjölgun ferðamanna til Íslands á árinu. Gengisþróun evru og dollars hefur verið félaginu hagstæð og vegur það að hluta upp á móti hærra eldsneytisverði. EBITDA spá félagsins fyrir árið í heild er því óbreytt 9,5 milljarðar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×