Viðskipti innlent

Simmi og Jói íhuga að kaupa Dominos

Simmi og Jói hafa gert það gott með Hamborgarafabrikkunni.
Simmi og Jói hafa gert það gott með Hamborgarafabrikkunni.
„Það eru sennilega allir í veitingabransanum að skoða þetta," segir Sigmar Vilhjálmsson einn af eigendum Hamborgarafabrikkunnar, eða Simmi eins og hann er oftast kallaður, en afþreyingasíðan Menn.is greindi frá því í dag að Simmi og félagi hans Jóhann Ásbjörnsson, oftast kallaður Jói, væru að fara kaupa pítsufyrirtækið Dominos sem Landsbankinn tók yfir á dögunum.

„En við erum klárlega að skoða þetta," segir Simmi og bætir við að þeir félagar, auk Skúla Gunnars Sigfússonar, meðeiganda í Hamborgarafabrikkunni, vera að skoða þann möguleika að bjóða í fyrirtækið. Hann segir það þó af og frá að það sé næsta víst að þeir munin festa kaup á fyrirtækinu eins og segir á Menn.is.

Dominos var í eigu Magnúsar Kristinssonar, útgerðarmanns í Vestmannaeyjum, en hann missti fyrirtækið í hendur Landsbankans vegna gríðarlegrar skuldsetningar félagsins.

Í tilkynningu frá Landsbankanum frá því í mars kom fram að stefnt væri að því að söluferlinu lyki í júní.

Sigmar segir þá félaga ekki búna að bjóða í félagið enda söluferlið ekki hafið formlega að hans sögn. Þá sagði hann ferlið frekar flókið þar sem nýir eigendur þyrftu einnig samþykki alþjóðlegu Dominos-keðjunnar til þess að fá að kaupa fyrirtækið.

Sigmar útlokaði alls ekki þann möguleika að þeir félagar myndu bjóða í fyrirtækið.

Pítsafyrirtækið Dominos skilur eftir sig nærri tveggja milljarða króna skuld samkvæmt ársreikningum fyrir árin 2008 og 2009 og DV greindi frá á sínum tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×