Viðskipti innlent

Segir Sigurjón hafa lagst gegn bankasameiningum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björgólfur Thor Björgólfsson segist ekki hafa verið skuggastjórnandi.
Björgólfur Thor Björgólfsson segist ekki hafa verið skuggastjórnandi.
Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, lagðist gegn sameiningu bankans við tvo banka. Þetta kemur fram í færslu á vef Björgólfs Thors Björgólfssonar. Um var að ræða annars vegar sænska bankann Carnegie og hins vegar Straum. Björgólfur bendir á þetta með vísan til þess að bankastjórar Landsbankans hafi tekið ákvarðanir með hagsmuni Landsbankans í huga en ekki til þess að þóknast hluthöfum bankans. Hann sjálfur hafi ekki verið skuggastjórnandi í bankanum.

Björgólfur segir að Sigurjóni hafi ekki hugnast sameining við Carnegie, en sá banki varð að stærstum hluta í eigum Landsbankans árið 2005. „Slík sameining hefði mögulega ógnað stöðu Sigurjóns sem aðalbankastjóra og kann það að útskýra afstöðu hans að hluta en einnig ber að virða það að honum þótti sænski bankinn of dýru verði keyptur," segir Björgólfur Thor á vefnum. Hann segir að sameiningarhugmyndin hafi hins vegar horfið úr sögunni eftir að Landsbankinn seldi hlut sinn í Carnegie.

Björgólfur segir að Sigurjóni hafi heldur ekki hugnast hugmyndir um sameiningu Landsbankans og Straums. „Eins lagðist Sigurjón ávallt gegn hugmyndum um sameiningu Landsbankans við Straum sem Björgólfur Thor hélt talsvert á lofti en William Fall, forstjóri Straums, hefði alltaf orðið aðalbankastjóri sameinaðs banka og því yfirmaður Sigurjóns," segir Björgólfur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×