Viðskipti innlent

Telur líkur á að Helguvík frestist um óákveðinn tíma

Seðlabankinn telur nú líkur á að framkvæmdir við álver í Helguvík muni frestast um óákveðinn tíma. Í nýútkomnum Peningamálum er sett fram frávikspá um efnahagsþróunin með þetta í huga.

Grunnspá Seðlabankans gerir ráð fyrir framkvæmdum í tengslum við fyrsta áfanga við byggingu álvers í Helguvík. Samkvæmt spánni fara framkvæmdir við álverið og tengdar orkuframkvæmdir á fulla ferð árið 2012 og ná hámarki á árinu 2013.

Eins og áður hefur komið fram í Peningamálum hefur þessum framkvæmdum ítrekað seinkað vegna vandamála við fjármögnun, óvissu um aðgengi að nægilegri orku og vandamála í tengslum við skipulags- og leyfismál.

Er nú svo komið að líkur á því að þær verði slegnar af um óákveðinn tíma hafa aukist, sérstaklega í kjölfar niðurstöðu Icesave-atkvæðagreiðslunnar. Í fráviksdæminu er því gert ráð fyrir að ekki verði af þessum framkvæmdum, a.m.k. ekki á spátímanum,að því er segir í Peningamálum.

Í samanburði við grunnspána hefði það fyrst og fremst áhrif á efnahagsþróunina á árunum 2012-2013 ef ekki yrði af þessum framkvæmdum. Vöxtur heildarfjármunamyndunar yrði líklega um 10 prósentum minni á næsta ári og um 5 prósentum minni árið 2013.

Vöxtur innlendrar eftirspurnar yrði því um 2 prósentum minni hvort árið og hagvöxtur um ½ prósentu minni. Eftirspurn eftir vinnuafli verður jafnframt minni og atvinnuleysi um ½ prósentu meira á næsta ári og um 1½ prósentu meira árið 2013. Útflutningur verður einnig veikari, en þau áhrif koma að mestu fram eftir að spátímanum lýkur. Minni fjárfesting hefði einnig í för með sér að framleiðslugeta þjóðarbúsins verður heldur minni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×