Viðskipti innlent

Tap á rekstri Húsasmiðjunnar en batnandi afkoma

Nokkur viðsnúningur varð í rekstri Húsasmiðjunnar á árinu 2010 en bókfært tap félagsins var 144 milljónir króna í stað 815 milljóna króna taps árið á undan að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu. „Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 333,5 milljónum króna. Heildareignir Húsasmiðjunnar í árslok 2010 námu 5,4 milljörðum króna og eigið fé var ríflega 1,4 milljarður króna,“ segir ennfremur.

Sigurður Arnar Sigurðsson, forstjóri Húsasmiðjunnar segir ljóst að viðsnúningur hafi orðið í rekstri félagsins þrátt fyrir nokkurn einskiptiskostnað vegna nauðsynlegra aðgerða á síðastliðnu ári. „Rekstrarumhverfi okkar hefur ekki verið gott undanfarin misseri en samdráttur í þjóðarframleiðslu og stöðnun í byggingarstarfsemi gerir okkur erfitt fyrir. Starfsmenn Húsasmiðjunnar hafa lagt sig fram um að hagræða á öllum sviðum og við væntum viðunandi afkomu með auknum hagvexti og framkvæmdum í landinu á komandi tíð."

Húsasmiðjan rekur 16 verslanir víða um land.  Auk þess starfræktar félagið 9 verslanir Blómavals, Ískraft á 5 stöðum auk heildverslunarinnar H.G. Guðjónsson.  Starfsmenn Húsasmiðjunnar og tengdra fyrirtækja eru um 520 talsins.

Framtakssjóður Íslands er nú aðaleigandi Húsasmiðjunnar eftir kaup hans á eignarhaldsfélaginu Vestia ehf.  sem formlega tóku gildi í febrúar á þessu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×