Viðskipti innlent

Seðlabankastjóri: Vonum það besta og búum okkur undir það versta

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Seðlabankinn spáir nú minni hagvexti á næstu tveimur árum og meiri óvissu en fyrri spár bankans gerðu ráð fyrir.

Það má segja að hið nýútgefna rit boði allt annað en betri tíð. Bankinn gerir ráð fyrir að vöxtur landsframleiðslu verði minni í ár en spáð var fyrir í febrúar og er hagvaxtarspá næstu tveggja ára lakari en gert var ráð fyrir. Þá er telur bankinn að hætta sé á að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar um Icesave geti dregið enn frekar úr hagvexti.

Verðbólga hefur aukist undanfarna tvo mánuði sem skýrist einkum af lægra gengi krónunnar og nýlegum verðhækkunum hrá- og olíuvöru. Þó er gert ráð fyrir að þessar hækkanir verði tímabundnar og eigi ekki eftir að koma til með að hafa viðvarandi áhrif á langtímaverðbólguvæntingar, launa- og verðmyndun. Hins vegar virðast launahækkanir sem felast í fyrirliggjandi drögum að kjarasamningum meiri en samræmist verðbólgumarkmið bankans til lengri tíma litið.

Alþjóðlegu matsfyrirtækin munu fljótlega taka ákvörðun um lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins en hún kann að takmarka svigrúm peningastefnunefndarinnar á næstu misserum. Niðurstaðan gæti einnig hægt á losun gjaldeyrishaftanna en hins vegar dregur það úr neikvæðum áhrifum að ekki er líklegt að efnahagsáætlunin með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum raskist.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri var bjartsýnn í lok fundar bankans í morgun og sagði að þó að fyrirtækin lækkuðu lánshæfismat Íslands niður í spákaupmennskuflokk með stöðugum horfum, sem er alls ekki víst að þau gera, þá þurfi ekki mikið, ef rétt er haldið á hlutunum, til þess að fá horfurnar í jákvæðar.

„Við skulum bara vona það besta og búa okkur undir það versta. Það er helsti lærdómur hrunsins," sagði Már.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×