Viðskipti innlent

Árni Páll: Verður ekki var við kúgunartilburði vegna Icesave

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Matsfyrirtækið Moody's staðfesti í gærkvöldi lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs með neikvæðum horfum. Efnahags- og viðskiptaráðherra segir hálfan sigur unninn.

Beðið hefur verið eftir nýju mati frá matsfyrirtækjunum Moody's og Standard & Poor's síðan Icesave-samkomulagið var fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir tæpum hálfum mánuði.

Í mati Moody's segir að þrátt fyrir niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar sé útlit fyrir að hlutagreiðslur úr þrotabúi gamla Landsbankans hefjist senn. Þá virðast eignir þrotabúsins vera verðmætari en áður var talið.

Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra segir hálfan sigur unninn með ákvörðun Moodys.

„Aðalmálið er að við áttum okkur á við þurfum að halda vel á spöðunum áfram og sýna umheiminum fram á að við séum nú að nálgast af alvöru það erfiða verkefni sem við erum að takast á við,“ segir Árni Páll.

Þá segir í mati Moodys að ekki sé talið líklegt að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar hafi áhrif á efnahagsáætlun AGS og stjórnvalda þótt fimmta endurskoðun áætlunarinnar muni tefjast.

„Við erum að vonast til þess að fimmta endurskoðun geti gengið í gegn fyrir lok maí, sendinefnd frá sjóðnum kemur hingað strax eftir páska og  við vonumst eftir að málið verði tekið fyrir í stjórn sjóðsins í seinni hluta maí.“

Hann segir engar líkur á því að Hollendingar og Bretar beiti sér gegn framgöngu efnahagsáætlunarinnar í stjórn AGS.

„Málin sem varða samskipti Íslands, Bretlands og Hollands eru í eðlilegum farvegi  og við verðum ekki vör við að það sé einhver tilhneiging af þeirra hálfu að beita einhverjum kúgunaraðferðum.“

Árni segir að verið sé að klára svar við bréfi ESA vegna Icesave málsins og það verði sent 2.maí næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×