Viðskipti innlent

Peningamál Seðlabankans: Lítið dregur úr atvinnuleysi á næstu mánuðum

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri
Seðlabankinn gerir ráð fyrir að lítið dragi úr atvinnuleysi á næstu mánuðum því enn séu fleiri fyrirtæki að segja upp fólki en ráða fólk. Spá Seðlabankans um atvinnuhorfur er þó bjartsýnni en nýleg spá forstöðumanns greiningardeildar Danske Bank.

Þetta kemur fram í peningamálum, efnhagsriti Seðlabankans.  Þar segir að þróun á vinnumarkaði hafi að undanförnu verið í samræmi við sýn bankans í síðasta riti Peningamála sem kom út í febrúar síðastliðnum. Enn séu fleiri fyrirtæki sem íhugi að segja upp fólki en að ráða fólk. Árstíðarleiðrétt atvinnuleysi hafi aukist lítillega eftir að hafa minnkað um tíma á síðasta ári. Meiri launahækkanir og lakari hagvaxtarhorfur geri það að verkum að nú sé gert ráð fyrir að atvinnuleysi hjaðni hægar en áður var talið. Þar fari saman áhrif minni efnahagsumsvifa og hærri launakostnaðar á vinnuaflseftirspurn. Einnig gæti minni umsvifa á vinnuframboð, til dæmis vegna tapaðrar þekkingar vinnuaflsins og minni getu vinnumarkaðar við að leiða saman starfsfólk með ákveðna þekkingu og fyrirtæki sem þurfi á slíkri þekkingu að halda.

Nú telur Seðlabankinn að atvinnuleysi verði um 7,7% að jafnaði á þessu ári en lækki síðan í um 5% árið 2013 sem er um einu prósenti meira en gert var ráð fyrir í febrúarspánni.  Þótt gert sé ráð fyrir að atvinna aukist á ný á fyrra hluta þessa árs verði fjölgun starfa hægari en framleiðslubatinn og atvinnustigið því nokkru lægra.

Spá Seðlabankans er þó nokkuð jákvæðari en greining Lars Christensen forstöðumanns greiningardeildar Danske Bank í síðustu viku. Þó Christensen hafi bent á að efnahagur á Íslandi væri að mörgu leyti á batavegi þá var hann ekki eins bjartsýnn á að atvinnuhorfur landsins. Hann taldi að atvinnuleysi myndi haldast að mestu óbreytt næstu þrjú árin eða nálægt tíu prósentum.  








Fleiri fréttir

Sjá meira


×