Viðskipti innlent

Koma hefði mátt í veg fyrir gjaldþrot fjölmargra fyrirtækja

Helga Arnardóttir skrifar
Lánafyrirtæki eru farin að viðurkenna ólögmæti fleiri gengistryggðra lánasamninga en Hæstiréttur hefur úrskurðað um. Koma hefði mátt í veg fyrir gjaldþrot fjölmargra fyrirtækja ef lánafyrirtækin hefðu tekið mið af eldri dómum Hæstaréttar.

Helga Arnardóttir.

Í vikunni úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur að gengistryggðir fjármögnunarleigusamningar væru ólöglegir. Slíkir samningar voru gerðir fyrir hrun til að fjármagna kaup fyrirtækja á atvinnutækjum. Lánafyrirtækin hafa jafnan stuðst við fimm lánasamningsform.

Kaupleigusamninga, bílasamninga, fjármögnunarleigusamninga, einkaleigusamninga og rekstrarleigusamninga. Kaupleigu og bílasamningar voru dæmdir ólögmætir í fyrra.



Árni Helgason lögmaður
„Í kjölfar þeirra dóma brugðust fyrirtækin þannig við að þau töldu hin þrjú formin, sem eru fjármögnunarleiga, einkaleiga og rekstrarleiga vera lögmæt og annars eðlis," segir Árni Helgason héraðsdómslögmaður og lögmaður lántakanda hjá SP-fjármögnun.

Nú hafa fjármögnunarleigusamningar verið dæmdir ólögmætir en dómstólar hafa ekki tekið afstöðu til einkaleigu og rekstrarleigusamninga. Þó eru dæmi um að lánafyrirtækin telji önnur gengistryggð lánaform ólögmæt þótt dómar hafi ekki fallið í þeim efnum. Skjólstæðingur Árna Helgasonar lögmanns var með einkaleigusamning hjá Sp fjármögnun.

„Sp-fjármögnun féllst á það að einkaleigusamningar væru þess eðlis að það bæri að endurreikna þá eins og aðra samninga sem hafa verið dæmdi ólögmætir. Þetta var ákveðin breyting frá því sem þeir höfðu sagt áður. Það munaði töluverðu fyrir fólk sem er búið að greiða af þessu í nokkur ár," segir Árni og bætir við að treglega hafi gengið að fá bankana til að viðurkenna og endurreikna þessi lán.

Hann segir að hefðu lánafyrirtækin tekið samstundis mið af dómum Hæstaréttar frá því í fyrra hefði hugsanlega verið hægt að koma í veg fyrir fjölmörg gjaldþrot hjá einstaklingum og fyrirtækjum.

„Það er auðvitað orðið mál sem þarf að skoða líka, hvernig á að fara með fyrirtæki sem hafa verið í fjárhagslegri spennitreyju og óvissu hjá bönkunum í tvö og hálft ár, þegar í ljós kemur að þessi lán voru allan tímann ólögmæt," segir Árni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×