Viðskipti innlent

Skattar draga úr eftirspurn

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Það gengur ekki lengur að horfa á skattahækkanir sem úrlausn í opinberum fjármálum segir formaður félags atvinnurekenda. Yfir áttatíu prósent fyrirtækja segja auknar skattahækkanir hafa neikvæð áhrif á eftirspurn.

Í könnun sem félag atvinnurekenda gerði meðal félagsmanna sinna fyrr á árinu kemur fram að 83 prósent félagsmanna segja auknar skattaálögur hafa neikvæð áhrif á eftirspurn á þeim markaði sem fyrirtæki þeirra starfar á. Þá hafa yfir fimmtíu prósent fyrirtækja gripið til hagræðingaraðgerða beinlínis vegna aukinna skattaálagna.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir könnunina vera athyglisverð skilaboð til stjórnvalda í því árferði sem við búum við núna.

„Ef að menn ná ekki hér upp eftirspurn sem smitar þá inn í það að kaupgeta almennings fer að aukast og kaupgeta fyrirtækja og þar af leiðandi skapast störf, þá þýðir það að vítahringurinn heldur áfram og við munum horfa upp á atvinnuleysi svipað og verið hefur samaborið við það að  geta komið hjólum atvinnulífsins af stað" segir Almar

Hann segir hagræðingar hjá hinu opinbera hafa gengið vel hingað til og hvetur stjórnvöld til að halda áfram á þeirri leið. Efnahagsumhverfi íslenskra fyrirtækja sé erfitt um þessar mundir og framtíðarsýnin lítil.

„Sem betur fer hafa mörg fyrirtæki verið endurskipulögð og eru svona smátt og smátt að komast á ról, en það þarf auðvitað meiri vöxt og hann gerist auðvitað í kringum það að umhverfið sé hóflegt varðandi skattastig og einnig þannig sköpum við kaupmátt og getum farið að skapa störfin, sem er það sem að flestir vilja"

Hann segir skilaboð félagsmanna hans vera skýr.

„Það gengur ekki lengur að horfa á skattahækkanir sem einhverja úrlausn opinberum fjármálum" segir Almar að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×