Viðskipti innlent

Laun hækkuðu um 0,3 prósent

Laun hækkuðu um 0,3% í mars síðastliðnum frá fyrri mánuð samkvæmt mánaðarlegri launavísitölu Hagstofu Íslands sem birt var síðastliðinn miðvikudag og greint er frá í morgunkorni Íslandsbanka.

Þetta er í samræmi við þá þróun sem að jafnaði hefur verið síðasta árið að júní síðastliðnum undanskildum þegar vísitalan hækkaði um rúm 2% vegna kjarasamningsbundinna hækkana. Ef miðað er við síðustu tólf mánuði hafa laun hækkað um 4,4% sem er svipað og verið hefur á undanförnum mánuðum.

Þó er tólf mánaða takturinn nú í mars hærri en hann var í mars fyrir ári en þá hækkuðu laun um einungis 0,1% milli mánaða en milli ára nam hækkunin 3,6%. Til samanburðar má hér nefna að í marsmánuði á árinu 2008 nam árstakturinn 7,8% og árið þar á undan nam hann 9,7%.

Þessi miklu umskipti á launaþróuninni eru augljóslega í takti við ástandið á vinnumarkaði hér á landi sem hefur einkennst af umtalsverðu atvinnuleysi og tíðum uppsögnum sem varla þekktist hér á árum áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×