Viðskipti innlent

Verðbólga yfir markmiðum í fyrsta sinn á árinu

Tólf mánaða verðbólga mælist nú 2,8 prósent og er það í fyrsta skipti á þessu ári sem verðbólgan mælist yfir markmiði Seðlabanka Íslands.

Þetta kemur fram í nýrri mælingu Hagstofunnar á breytingu vísitölu neysluverðs. Í apríl hækkaði vísitalan um núll komma sjötíu og átta prósent milli mánaða. Verð á bensíni og olíum hækkaði um þrjú komma tvö prósent og hefur mest áhrif til hækkunar vísitölunnar. Einnig hækkuðu flugfargjöld um sextán prósent milli mánaða. Þá hækkaði kostnaður vegna eigin húsnæðis í apríl, aðallega vegna hærra markaðsverðs að sögn Hagstofunnar.

Verðlag hefur nú hækkað um 2,9 prósent síðustu þrjá mánuði sem jafngildir yfir tólf prósenta verðbólgu á ársgrundvelli. Greiningardeild Arion Banka spáir því að vísitalan hækki áfram í maí og júní. Þar með verði 12 mánaða verðbólga komin yfir fjögur prósent í lok júní. Í peningamálum Seðlabankans sem komu út fyrir páska er hins vegar áætlað að verðbólga nái hámarki í rúmum þremur prósentum og haldist svipuð út árið.

Vísitalan er nú birt á nýjum grunni sem byggist á niðurstöðum úr útgjaldarannsókn Hagstofunnar árin 2007-2009. Þá hefur verið tekið tillit til breytts innkaupamynsturs árið 2010 og varð það til lítllegrar lækkunar á vísitölunni. Vísitala neysluverðs í apríl gildir til verðtryggingar í júní 2011.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×