Viðskipti innlent

Nýsköpunarsjóðurinn fjárfestir í Mint

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur keypt hlut í Mint solutions.
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur keypt hlut í Mint solutions.
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins ásamt sprotafjárfestum, þar á meðal fjárfestingafélaginu Investa, hafa gert samning um kaup á hlutafé í fyrirtækinu Mint Solutions ehf. Markmið fyrirtækisins er að vera leiðandi í gerð lausna til lyfjaeftirlits á sjúkrastofnunum og hefja markaðssetningu erlendis.  

Í fréttatilkynningu frá Nýsköpunarsjóðnum segir að fyrirtækið Mint Solutions hafi hannað MedEye lausnina sem auðveldi sjúkrastofnunum að hafa eftirlit með lyfjagjöfum. Mistök við lyfjagjöf séu alvarlegt vandamál sem allar sjúkrastofnanir glími við og kosti fjölda mannslífa á ári hverju. MedEye skannar lyf myndrænt og greinir lyfjategundir til að koma í veg fyrir mistök. MedEye eykur öryggi við lyfjagjöf verulega og er einstakt í sinni röð. Sótt hefur verið um einkaleyfi á lausninni.

„Við hjá Nýsköpunarsjóði erum mjög ánægð með fjárfestinguna í Mint Solutions og höfum trú á því að stofnendum félagsins takist að koma þessari lausn inn á markað í Evrópu og Bandaríkjunum," segir Helga Valfells, framkvæmdarstjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Hún segir að fjárfest hafi verið í Mint solutions þar sem Nýsköpunarsjóðurinn hafi séð gott teymi sem hafði bæði góða tækniþekkingu og mikla markaðsreynslu. Varan sé tímabær og fjárfestingar í íslenskri heilbrigðistækni geti verið mjög arðbærar ef rétt er haldið á spilunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×