Viðskipti innlent

Gjaldeyrishöftin valda hækkunum á húsnæðisverði

Ein afleiðing gjaldeyrishaftanna er að húsnæðisverð er á uppleið. Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningar Arion banka þar sem fjallað er um verðbólgumælinguna í apríl. Húsnæðisliðurinn var einn af þeim þáttum sem juku verðbólguna í mánuðinum.

„Þrátt fyrir aukin umsvif á fasteignamarkaði má ekki greina samsvarandi aukningu í nýjum útlánum samkvæmt upplýsingum úr Peningamálum. Líklega eru fjárfestar nú farnir að sýna fasteignum aukinn áhuga og peningur streymir því úr innlánum inn á fasteignamarkaðinn,“ segir í Markaðspunktunum.

Greining segir að þetta sé í raun eðlileg þróun enda liggur nú fyrir „plan“ hjá ríkisstjórninni um hvernig staðið verður að afnámi hafta og þar kemur skýrt fram að innlendir fjárfestar eru þeir síðustu til að mega fara með peninga sína úr landi.

„Því er ljóst aukinn áhugi fjárfesta á fasteignamarkaði má rekja til þess að það eru og verða áfram fáir aðrir fjárfestingakostir í boði enda útlit fyrir að gjaldeyrishöftin verði hér a.m.k. næstu fimm árin ef ekki lengur,“ segir í Markaðspunktunum.

„Annar þáttur sem spilar ekki síður stórt hlutverk er talsverð uppsöfnuð eftirspurn sem er til staðar á íbúðamarkaði, sem endurspeglast m.a. í háu leiguverði. Sú eftirspurn er líklega að færa sig yfir á kaupmarkaðinn nú í auknum mæli. Afleiðing vegna þessa má nú greina í hækkun fasteignaverðs sem skilar sér í aukinni verðbólgu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×