Viðskipti innlent

Lögheiti Landsbankans verður Landsbankinn hf.

Samþykkt var á aðalfundi NBI hf. sem haldin var í gær að breyta lögheiti bankans í Landsbankinn hf. Er þetta í fullu samræmi við yfirlýsta stefnu bankans um að mikilvægara sé að breyta hugarfari en að skipta um nafn. Nafnið Landsbankinn hefur verið og verður vörumerki bankans. Nafnið NBI hf. sem verið hefur lögheitið verður með þessu lagt niður.

Þetta kemur fram í umfjöllun um aðalfundinn á vefsíðu bankans. Þar segir að á aðalfundinum fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf, reikningar bankans voru samþykktir og allar tillögur sem fyrir voru lagðar sömuleiðis.

Bankaráð Landsbankans var allt endurkjörið, Gunnar Helgi Hálfdanarson verður áfram formaður og Sigríður Hrólfsdóttir varaformaður. Aðrir bankaráðsmenn eru þau Þórdís Ingadóttir, Guðríður Ólafsdóttir og Ólafur H. Ólafsson. Fyrsti varamaður er Andri Geir Arinbjarnarson sem jafnframt situr alla fundi bankaráðsins.

Í ræðu sinni á fundinum fjallaði Gunnar Helgi Hálfdanarson, formaður bankaráðs meðal annars um þá fyrirætlan bankans að skrá á markað tvö félög í sinni eigu síðar á þessu ári. Hann lýsti vilja bankans til að hægt yrði að meta lánshæfi hans á alþjóðamörkuðum en mikilvægur undanfari væri vel heppnuð lántaka ríkissjóðs á erlendum lánamarkaði. Gunnar Helgi sagði Landsbankann vilja taka öflugan þátt í hagræðingu á fjármálamarkaði og hefði til þess þann styrk sem þyrfti.

Gunnar Helgi fjallaði í máli sínum nauðsyn stöðugleika fyrir heimili og fyrirtæki og lýsti áhyggjum af þeirri þróun sem langvinnar deilur um fjárfestingu og auðlindanýtingu hafa á framtíðarmöguleika landsmanna.

Gunnar gerði stöðu krónunnar að umtalsefni og sagðist telja að hún væri ótrúverðugur gjaldmiðill og gerði alla áætlanagerð bæði fyrirtækja og heimila mjög erfiða. Hann lýsti þeirri skoðun að það væri brýnt hagsmunamál fyrir Íslendinga að hefja verði sem fyrst vandaða "umræðu um fleiri kosti en evru, samtímis því að upptaka hennar verði könnuð til þrautar."

Gunnar Helgi minnti jafnframt á að í eigendastefnu ríkisins væri gert ráð fyrir því að Landsbankinn kæmist í dreift eignarhald fyrr en síðar. Uppbygging Landsbankans væri samkvæmt þeirri stefnu og það væri mikilvægt "að framkvæmd þeirrar stefnu verði gerð ljós."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×