Viðskipti innlent

Áskorun frá SAF um að lækka álögur á eldsneyti

Mynd/Vísir.
Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) taka undir áskorun FÍB, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands til stjórnvalda um að lækka álögur hins opinbera á eldsneyti.   Vegagerðin spáir verulegum samdrætti í umferð framundan og er ljóst að það mun koma fram í fækkun ferðamanna úti á landsbyggðinni, sérstaklega í þeim byggðum sem langt er að sækja.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem SAF hafa sent frá sér. Þar segir ennfremur að ferðaþjónustan er ein af mikilvægustu atvinnugreinum landsins í bæði gjaldeyris- og atvinnusköpun og getur það því haft alvarlegar afleiðingar ef samdráttur í ferðum um landið verður mikill.

Eldsneytisverð hefur hækkað gríðarlega á undanförnum misserum og er staðan nú þannig að aðeins er ekið á Vík í Mýrdal fyrir það eldsneyti sem fór í að aka á Höfn í Hornafirði árið 2007.

Það vekur furðu að fjármálaráðherra skuli í Morgunblaðinu nýlega telja það skipta litlu fyrir fólk og fyrirtæki að lækka eldsneytisverð um nokkrar krónur, eins og hann orðaði það.  Ríkissjóður tekur til sín um 115 krónur af hverjum bensínlítra og hafa skatttekjurnar hækkað um 52% frá miðju ári 2008.  Það er því borð fyrir báru hjá ríkissjóði að lækka álögur og stuðla þar með að auknum ferðum fólks um landið og létta undir með bílaútgerð ferðaþjónustufyrirtækja auk þess sem vísitalan mun lækka, öllum til góða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×