Viðskipti innlent

Íslensk minkaskinn seld fyrir 300 milljónir

Íslensk minkaskinn seldust fyrir um 300 milljónir kr. á uppboði hjá Kopenhagen Fur sem nú stendur yfir í Kaupmannahöfn. Allt stefnir í að met verði slegið hvað varðar veltuna og meðalverðið á uppboðinu.

Samkvæmt frétt um uppboðið í Berlingske Tidende hafa Kínverjar gengið af göflunum á þessu uppboði. Minkaskinn fyrir 600.000 kr. hafa verið seld á hverri sekúndu á uppboðinu. Allt stefnir í að heildarveltan á uppboðinu nema 2 milljörðum danskra kr. eða yfir 40 milljörðum kr. Þá stefnir í að meðalverðið á skinn verði um 400 danskar kr. eða yfir 8.000 kr. Báðar tölur eru met.

Björn Halldórsson formaður Sambands íslenskra loðdýraræktenda segir í samtali við Vísir að íslenskir loðdýrabændur séu með um 30 til 40 þúsund skinn á þessu uppboði. Því stefnir í að þeir muni selja fyrir um 300 milljónir kr. Björn telur að meðalverðið á íslensku skinnunum verði á bilinu 7.500 til 8.000 kr.

Sem fyrr segir eru það kínverskir kaupendur sem halda eftirspurninni upp á minkaskinnunum og ekkert lát virðist á þeirri eftirspurn í nánustu framtíð. Þá hafa Rússar komið sterkt inn á þetta uppboð Kopenhagen Fur.

Björn segir að hann sé mjög ánægður með hvernig skinnamarkaðurinn hefur þróast undanfarin ár. „Fyrir ekki svo stuttu síðan gat ég ekki ímyndað mér í mínum villtustu draumum að þróunin yrði þessi," segir Björn.

Næsta uppboð er í júní og þá munu íslenskir loðdýraræktendur selja 40 til 50 þúsund skinn í Kaupmannahöfn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×