Viðskipti innlent

Ekki von á breytingum hjá Moodys í þessari viku

Ekki er að vænta breytingar á lánshæfismati ríkissjóðs í þessari viku samkvæmt bandaríska matsfyrirtækinu Moodys. Endurmat lánshæfis veltur á viðbrögðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Norðurlandanna.

Bandaríska matsfyrirtækið Moodys tilkynnti í febrúar að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave myndi hafa áhrif á lánshæfismat Íslands. Í þeirri tilkynningu sagði að ef að samningunum yrði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslunni myndu þeir neyðast til að endurskoða lánshæfismatið með neikvæðu viðhorfi.

Þá var talið að höfnun samninganna gæti haft þau áhrif að 1,1 milljarða dollara lán frá Norðurlöndunum gæti tafist sem og efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Umfang niðurfærslu matsins myndi síðan velta á heilbrigði hagkerfisins sem og efnahagslegum bata með tilliti til áframhaldandi gjaldeyrishafta og erlends lánastuðnings.

Í samtali við fréttastofu segir Kathrin Muehlbronner, yfirgreinandi hjá Moodys í London, að ekki sé von á uppfærðu lánshæfismati strax í þessari viku. Fyrirtækið ætli sér nú að meta stöðuna í kjölfar niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar í samhengi við hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og norrænar ríkisstjórnir bregðast við. Það sé hins vegar fullljóst að þeir muni endurmeta lánshæfi ríkissjóðs og tilkynna niðurstöðu sína eins fljótt og hægt er.

Lítil viðbrögð urðu við opnun skuldabréfamarkaða í morgun en almennt er talið að markaðir hafi verið farnir að undirbúa sig undir höfnun samninganna í kjölfar skoðanakannanna í lok síðustu viku. Þá er talið að markaðsaðilar séu að bíða niðurstöðu matsfyrirtækja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×