Viðskipti innlent

Beðið eftir ákvörðun Moody´s

Að viðbrögðum ESA slepptum í Icesave málinu hafa enn ekki borist viðbrögð frá þeim erlendum aðilum sem hvað mest hafa að segja um þróun mála hérlendis næsta kastið. Stóru matsfyrirtækin hafa enn ekki kveðið úr um hvaða áhrif úrslit atkvæðagreiðslunnar hafi á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs.

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að verði lánshæfiseinkunnin lækkuð hefur það neikvæð áhrif á fjármögnun Búðarhálsvirkjunar og kann að seinka viðleitni ríkissjóðs til að sækja lánsfé erlendis.

Hafist matsfyrirtækin hins vegar ekki að næstu daga hlýtur það að teljast jákvætt þar sem þar með yrði eytt óvissuþætti sem erlendir fjárfestar horfa talsvert til. Gæti því fjárfesting hérlendis glæðst í kjölfarið.

Eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave síðastliðinn laugardag munu næstu skref í Icesave-deilu Íslands við Breta og Hollendinga líklega ráðast á vettvangi EFTA. Í tilkynningu frá ESA, eftirlitsstofnun EFTA, kemur fram að vænst er skjótra svara frá íslenskum stjórnvöldum við áminningarbréfi stofnunarinnar frá maí í fyrra.

Í máli ráðamanna í gær kom fram að stefnt væri að því að svara bréfinu um miðjan maímánuð. Í kjölfarið metur ESA svör stjórnvalda og ef þau breyta ekki frumniðurstöðu stofnunarinnar mun Íslandi verða veittur tveggja mánaða frestur til þess að bregðast við.

Töluverðar líkur eru því á að málið verði rekið fyrir EFTA-dómstólnum á haustdögum. Meiri óvissa ríkir um hvort stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi muni sækja málið frekar fyrir dómstólum, og má gera ráð fyrir að niðurstaða EFTA-dómstólsins skipti þar verulegu máli

Ekki er enn ljóst hvort niðurstaðan á laugardag hefur áhrif á efnahagsáætlun AGS og stjórnvalda. Fulltrúi AGS sagði í gær að höfnun Icesave kynni að seinka fimmtu endurskoðun áætlunar sjóðsins og stjórnvalda, sem fara átti fram í lok aprílmánaðar.

„Raunar teljum við líklegt að endurskoðunin hefði tafist burtséð frá Icesave þar sem ýmsir aðrir þættir standa þar enn út af borðinu, svo sem endanleg niðurstaða varðandi sparisjóðakerfið næstu árin,“ segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×