Viðskipti innlent

Forsetinn hraunar yfir matsfyrirtækið Moody´s

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands notaði tækifærið í viðtali við sjónvarpsstöð Bloomberg fréttaveitunnar til að hrauna yfir matsfyrirtækið Moody´s. Hann sagði frammistöðu Moody´s í aðdraganda hrunsins hafa verið ömurlega þegar fyrirtækið gaf íslensku bönkunum einkunnina AAA skömmu fyrir fall þeirra.

Þetta kom fram í svari forsetans við spurningunni um hvort hann hefði ekki áhyggjur af því að Moody´s myndi setja lánshæfi Íslands í ruslflokk. Forsetinn segist ekki hafa neinar áhyggjur af því. Hann telur að í stað þess að einblína á úrslitin í Icesave kosningunum ætti Moody´s að beina sjónum sínum að því að mörg erlend stórfyrirtæki ætli að fjárfesta á Íslandi.

Í sambandi við erlendar fjárfestingar og áhuga alþjóðlegra fjárfesta á Íslandi sagði forsetinn m.a. að Rio Tinto ætlaði að fjárfesta fyrir 5 milljarða dollara í endurnýjun á álveri sínu. Hér skal tekið fram að sú framkvæmd er upp á um 60 milljarða króna.

Þá sagðist forsetinn engar áhyggjur hafa af því að aðildarviðræðunum við ESB verði slitið. Þvert á móti héldu þær viðræður áfram þegar Bretar og Hollendingar áttuðu sig á því að þeir fengju 9 milljarða dollara, um 1.000 milljarða kr., borgaðar úr þrotabúi Landsbankans. Forsetinn segir að þær greiðslur hefjist strax næsta sumar þegar stórar summur verða greiddar úr búinu til Breta og Hollendinga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×