Viðskipti innlent

Fjármögnun Búðarhálsvirkjunar ekki í uppnámi

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Fjármögnun Búðarhálsvirkjunar er ekki í uppnámi vegna synjunarinnar á Icesave. Hins vegar þarf Landsvirkjun að fjármagna virkjunina á verri kjörum, en það gerist aðeins ef lánshæfi ríkisins lækkar.

Landsvirkjun er með fjölda lánasaminga við alþjóðlegar lánastofnanir og margir höfðu haft af því áhyggjur að höfnun Icesave III í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardag myndi hafa neikvæði áhrif á fyrirtækið. Fyrst og fremst af þeirri ástæðu að nei á laugardag þýddi lækkun lánshæfiseinkunnar íslenska ríkisins.

Tvö matsfyrirtæki meta Landsvirkjun, bandarísku lánshæfisfyrirtækin Moody's og Standard og Poor's. Hvorugt þeirra hefur gert upp hug sinn eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna, en fram kom í dag að Moody's hygðist taka sér viku til að gefa út nýja einkunn fyrir íslenska ríkið.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru engin gjaldfellingarákvæði, svokallaði covenantar, (e. covenants) í lánasamningum Landsvirkjunar sem verða virkir ef lánshæfið hjá Moody's og Standard og Poor's fer niður í svokallaðan spákaupsmennskuflokk.

Þá munu engir vextir í lánasamningum sem rjúka upp ef lánshæfið verður lækkað. Það sem gerist er að Landsvirkjun mun hugsanlega bjóðast lakari kjör við fjármögnun á skuldabréfamörkuðum erlendis með skammtímafjármögnun.

Fjárfestingarbanki Evrópu var búinn að lána Landsvirkjun fyrir Búðarhálsvirkjun en það var skilyrt við að lánshæfið myndi ekki lækka. Ef það fellur er Búðarhálsvirkjun samt á dagskrá, en fjármögnun verkefnisins verður með styttri lánstíma og aðeins verri kjörum . Landsvirkjun setur þó skýran fyrirvara við þetta, enda hafi lánshæfið ekki verið lækkað enn. Laust fé Landsvirkjunar í lok síðasta árs nam 66 milljörðum, en það þarf að fara í afborganir á öðrum lánum, en ekki til að fjármagna nýframkvæmdir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×