Viðskipti innlent

Fitch: Lánshæfi Íslands ekki úr ruslflokki í náinni framtíð

Matsfyrirtækið Fitch Ratings heldur lánshæfismati sínu fyrir Ísland óbreyttu í ruslflokki með neikvæðum horfum. Jafnframt segir Fitch að líkur fari minnkandi á að lánshæfið verði aftur hækkað í fjárfestingarflokk í náinni framtíð.

Þetta kemur fram í áliti sem Fitch hefur sent frá sér í kjölfar niðurstöðu atkvæðagreiðslu um Icesave-samninginn sem haldin var síðast liðinn laugardag. Fitch lækkaði langtímaeinkunn ríkissjóðs í erlendri mynt í BB+ með neikvæðum horfum úr BBB- 5. janúar í fyrra  í framhaldi af ákvörðun forsetans um að vísa fyrri Icesave samningi til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í álitinu kemur m.a. fram að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar geti leitt til þess að frekari tafir verði á því að gjaldeyrishöftunum verði aflétt.

Þá kemur fram að Fitch telur að dómsmálaferlið sem nú er hafið á vegum ESA muni að öllum líkindum enda fyrir EFTA dómstólnum geti staðið yfir í allt að 18 mánuði. Það geti ennfremur leitt til þess að tafir verði á næstu endurskoðun á áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en hún átti að fara fram í þessum mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×