Viðskipti innlent

Þorskkvótinn gæti farið í 190.000 tonn

Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ segir að þorskkvótinn gæti farið í allt að 190.000 tonn á næsta fiskveiðiári. Kvótinn er 160.000 tonn á yfirstandandi ári. Þetta mat byggir hann á niðurstöðum úr vorralli Hafrannsóknarstofnunnar sem kynnt var í gærdag.

Fjallað er um málið á vefsíðu LÍÚ. Þar segir að samkvæmt stofnmælingu botnfiska á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar í síðasta mánuði hækkaði stofnvísitala þorsks fjórða árið í röð.

„Þetta eru afar jákvæðar fréttir og ef þessar vísbendingar ganga eftir gæti viðmiðunarstofn þorsks verið á bilinu ein milljón til ellefu hundruð þúsund tonn, sem er umtalsvert meira en spár í fyrra gerðu ráð fyrir. Það gæti gefið um 180-190 þúsund tonna aflamark í þorski á næsta fiskveiðiári miðað við óbreytta aflareglu. Þetta kemur hinsvegar ekki í ljós fyrr en eftir að stofnmatið hefur verið klárað og auðvitað vonumst við eftir enn hærra aflamarki" segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ. 

Friðrik segir LÍÚ telja að aflamarkið í þorski hafi verði of lágt á undanförnum árum og að þetta staðfesti það mat. Friðrik segir LÍÚ hafa farið þess á leit við sjávarútvegsráðherra í júní í fyrra að aflaregla í þorski verði endurskoðuð.

Friðrik segir vísbendingar um ástand gullkarfastofnsins einnig ánægjulegar og staðfesta það sem skipstjórnarmenn hafa lýst. Hann segir að LÍÚ og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands hafi farið þess á leit við sjávarútvegsráðherra að karfakvótarnir á þessu fiskveiðiári verði auknir í það sama og þeir voru á síðasta fiskveiðiári eða 50 þúsund tonn samtals í gull- og djúpkarfa. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×