Viðskipti innlent

Mikil eftirspurn eftir íslensku starfsfólki í Noregi

Mikil eftirspurn er nú eftir íslensku starfsfólki í Noregi. Sem dæmi þá er fyrirtækið Medical Care AS frá Osló hingað komið í leit að 120 hjúkrunarfræðingum , 50 sjúkraliðum og öðru heilbrigðisstarfsfólki.

Þetta kemur fram á vefsíðu Vinnumálastofnunnar þar sem fjallað er um evrópska starfakynningu sem verður um komandi helgi. Fyrirsögnin á umfjölluninni er: Íslenskir atvinnuleitendur fjársjóður fyrir norskt atvinnulíf.

Um helgina, eða á föstudag og laugardag stendur Vinnumálastofnun og EURES, evrópsk vinnumiðlun, fyrir evrópskri starfakynningu í Ráðhúsi Reykjavíkur. EURES er samstarf um vinnumiðlun á Evrópska efnahagssvæðinu en hlutverk EURES  er að auðvelda vinnandi fólki að flytjast milli EES landa og jafna þannig út staðbundnar sveiflur innan svæðisins.

Eftir hrun hefur samvinna EURES hér á landi og í Noregi aukist mjög þar sem Íslendingar sækjast fyrst og fremst eftir störfum þar í landi. Þannig fluttu 1.539 íslendingar til Noregs í fyrra og þar búa nú í kringum 9000 íslendingar samkvæmt íbúaskrá Þjóðskrár.

Á starfakynningunni sem nú er haldin í sjöunda sinn, munu Euresráðgjafar frá sjö Evrópulöndum kynna atvinnutækifæri í sínum löndum en fyrirferðamest eru norsku fyrirtækin, fjórtán talsins sem senda fulltrúa sína hingað til lands í von um að ráða til sín íslenska starfsmenn. Íslenskum atvinnuleitendum gefst þannig færi á að ræða beint og milliliðalaust við norska atvinnurekendur.

Aldrei hafa jafnmargir aðilar tekið þátt í kynningunni og aldrei hafa væntingarnar verið jafnmiklar. Sem dæmi þá er fyrirtækið Medical Care AS frá Osló hingað komið í leit að 120 hjúkrunarfræðingum , 50 sjúkraliðum og öðru heilbrigðisstarfsfólki. Einnig er nú í meira mæli en áður verið að leita að mjög sérhæfðum starfsmönnum svo sem veðurfræðingum, jarðfræðingum og sérfræðingum í þróun vatnsaflsvirkjana. Annars er eftirspurn eftir hvers konar iðnmenntuðu og háskólamenntuðu fólki , að því er segir á vefsíðu Vinnumálastofnunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×