Viðskipti innlent

S&P setur ÍLS á athugunarlista með neikvæðum horfum

Matsfyrirtækið Standard & Poor´s (S&P) hefur sett lánshæfiseinkunn Íbúðalánasjóðs (ÍLS) á athugunarlista með neikvæðum horfum.

Þar með hefur S&P sett alla þá aðila sem það metur á Íslandi, ríkissjóð, Landsvirkjun og ÍLS á athugunarlista með neikvæðum horfum.

Rökstuðningur S&P er sá sami fyrir alla þessa aðila. Þeir eru settir á athugunarlistann í framhaldi af því að Ísland hafnaði í annað sinn, í þjóðaratkvæðagreiðslu, að samþykkja Icesave samninga.

S&P segir að það sjái fram á aukna efnahagslega áhættu fyrir Ísland í tengslum við langt tímabil óvissu þar sem S&P telur að Icesave málinu verði vísað til EFTA dómstólsins.

S&P telur að málaferlin hjá EFTA dómstólnum muni standa í ár eða lengur. Að málið dragist svo á langinn hafi í för með sér líkur á að samskipti Íslands við önnur Evrópuríki muni versna og hindra endurreisn efnahagslífsins á Íslandi.

Þá muni deilan einnig koma í veg fyrir að gjaldeyrishöftunum verði aflétt og lengja þann tíma sem tekur Ísland að komast aftur á erlenda lánsfjármarkaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×