Viðskipti innlent

Landsvirkjun gæti malað gull fyrir ríkissjóð

Framtíðarsýn forstjóra Landsvirkjunar til 15 ára er sú að arður og skattar af starfsemi fyrirtækisins geti orðið jafnveigamiklir og arður Noregs af olíuvinnslu. Fyrirtækið skilaði bestu rekstrarafkomu í sögu fyrirtækisins á síðasta ári.

Landsvirkjun hélt ársfund á Grand hótel í dag. Þar var afkoma fyrirtækisins meðal annars kynnt, en rekstrarhagnaður fyrirtækisins nam meira en 22 milljörðum króna árið 2010 og óx um sjötíu prósent milli ára. Heildarafkoma fyrirtækisins var reyndar lakari en árið áður, en það verður einkum rekið til verðbreytinga á innbyggðum afleiðum fyrirtækisins, sem ekki koma rekstrinum beinlínis við.

„Afkoman er bara mjög vel viðunandi. Þetta er besta afkoma sem fyrirtækið hefur náð. Fjármálamyndun er sterk og það skiptir mjög miklu máli að vera með sterkt lausafé. Það hefur tekist vel og verið að tryggja okkur aðgang að frekari lausafé þannig að við getum nú haldið þeim framkvæmdum áfram sem við stefndum að," segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Á fundinum ræddi forstjóri fyrirtækisins jafnframt um framtíðarsýn Landsvirkjunar á Ísland árið 2025, sem byggir á greiningarvinnu fyrirtækisins. Hann sér fyrir sér að raforkuvinnsla geti tvöfaldast á næstu 15 árum á sjálfbæran hátt, raforkuverð til iðnaðar muni hækka og arð- og skattgreiðslur Landsvirkjunar gætu numið fjórum til 8 prósentum landsframleiðslu. Þannig verði fyrirtækið jafnveigamikið í hlutfalli við landsframleiðslu og norski olíusjóðurinn. Tækifærin séu til staðar, en þau hvíli á þremur meginforsendum.

„Í fyrsta lagi að það séu viðskiptavinir sem vilji koma til okkar. Við finnum fyrir sterkum vilja frá ýmsum til að koma til okkar. Í öðru lagi að það verði sátt um það að Landsvirkjun fái að vaxa og fara í fleiri virkjanakosti," segir Hörður. „Í þriðja lagi er aðgangur að fjármagni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×