Viðskipti innlent

Skattheimtu af olíuvinnslu breytt

Ríkissjóður Íslands fengi þrjátíu til fjörutíu prósent í skatta af olíulindum á Drekasvæðinu, samkvæmt frumvarpi sem fjármálaráðherra hefur flutt á Alþingi. Þar er lagt til að skattar af olíuvinnslu verði lækkaðir frá því sem áður var áformað svo Ísland verði samkeppnisfært við nágrannaríki eins og Færeyjar og Grænland.

Fyrsta olíuleitarútboð Íslendinga fyrir tveimur árum skilaði umsóknum frá tveimur olíufélögum sem á endanum hættu bæði við. Þegar skýringa var leitað kom fram í viðtölum við fulltrúa Sagex Petrolium, þess félags sem mestan áhuga sýndi útboðinu, að skattheimtan sem Íslendingar áformuðu var meðal þess sem fældi frá. Íslenskt stjórnvöld hafa nú tilkynnt að nýtt útboð fari fram á Drekasvæðinu í haust, og í tengslum við það hefur fjármálaráðherra lagt fyrir Alþingi að skattheimtu af olíuvinnslu verði breytt verulega, hún bæði lækkuð og einfölduð.

Lagt verði á fimm prósenta framleiðslugjald, sem þýddi að ríkið fengi strax tekjur af vinnslunni, óháð hagnaði. Þegar hagnaður myndast leggst á tuttugu prósenta almennur tekjuskattur og loks leggst á stighækkandi kolvetnisskattur, 0,45 af hagnaðarprósentu, og hækkar skatturinn eftir því sem

hagnaðarhlutfall eykst af vinnslunni. Ætla má að gjöfular olíulindir í hafi gætu haft tíu til fimmtíu prósenta hagnaðarhlutfall, sem þýddi þá kolvetniskatt frá fimm og yfir tuttugu prósent. Ef slíkt yrði raunin á Drekasvæðinu gæti ríkissjóður vænst þess að fá í heildarskatta þrjátíu til fjörutíu prósent af tekjunum.

Fjármálaráðherra segir skattkerfið þýða að ríkissjóður fái ásættanlega hlutdeild í hagnaði og að Ísland verði samkeppnishæft við nágrannaríki, og tiltekur Noreg, Færeyjar, Kanada, Írland og Grænland.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×