Viðskipti innlent

Spáir óbreyttum stýrivöxtum

Greining Íslandsbanka spáir því með því að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum sem er á miðvikudaginn kemur. Verða vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana því áfram í 3,25% og hámarksvextir 28 daga innistæðubréfa í 4,00%, vextir á lánum gegn veði til sjö daga í 4,25% og daglánavextir 5,25%.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að síðasta vaxtaákvörðun peningastefnunefndarinnar var 16. mars síðastliðinn og hélt nefndin stýrivöxtum bankans þá óbreyttum. Í yfirlýsingu vegna ákvörðunarinnar sagði nefndin að þar sem horfur eru á að verðbólga verði áfram við verðbólgumarkmiðið og í ljósi þess að vextir eru í sögulegu lágmarki ríkir aukin óvissa um í hvaða átt næstu vaxtabreytingar verða.

Frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi peningastefnunefndar Seðlabankans hefur verðbólgan aukist nokkuð. Fór hún úr 1,9% í 2,3% á milli febrúar og mars síðastliðinn. Gæti verðbólgan farið enn hærra nú í apríl eða upp í 2,5-2,6%.

„Skýrist þetta aðallega af mikilli hækkun hrávöru- og olíuverðs á alþjóðamörkuðum. Þetta ætti þó ekki að hafa neikvæð áhrif á verðbólguhorfur til lengri tíma á meðan verðbólguvæntingar og launaþróun verða ekki fyrir áhrifum af hækkununum. Þrátt fyrir aukna verðbólgu nú reiknum við með því að verðbólgan verði í grennd við verðbólgumarkmið bankans litið til næstu mánaða. Því er um tímabundna aukningu í verðbólgu að ræða,“ segir í Morgunkorninu.

„Slaki í þjóðarbúskapnum og hækkun á gengi krónunnar undanfarið ár stuðla að lágri verðbólgu um þessar mundir. Þá reiknum við með að niðurstaða í yfirstandandi kjarasamningum muni ekki breyta þessum horfum. Horfur eru á því að verðbólgan verði fremur lág út þetta ár og það næsta að því tilskyldu að gengi krónunnar haldist stöðugt og að eitthvert lát verði á verðhækkun hrávöru og eldsneytis erlendis.

Gengi krónunnar er nú nær það sama og það var á síðasta vaxtaákvörðunarfundi nefndarinnar í mars síðastliðnum. Virðist sú lækkunarhrina sem einkenndi fyrstu vikur ársins hafa stöðvast enda mátti telja líklegt að þar væru tímabundnir þættir að verki er tengdust m.a. talsverðum inngripum Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði undir lok síðastliðins árs og árstíðarbundnum sveiflum á gjaldeyrisflæði til landsins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×