Viðskipti innlent

Spá 0,25 prósentustiga vaxtalækkun

Hagfræðideild Landsbankans telur að forsendur séu fyrir að minnsta kosti 0,25% lækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands á næsta vaxtaákvörðunardegi hinn 20. apríl.

Í tilkynningu segir að gengi krónunnar hefur haldist stöðugt undanfarnar vikur og undirliggjandi verðbólga er lág. Fyrstu tölur Hagstofunnar um hagvöxt árið 2010 benda til þess að ákveðnum stöðugleika sé náð í efnahagslífinu en að sama skapi eru engin haldbær merki þess að hagvöxtur sé hafinn að nokkru marki. Mikill slaki er nú í hagkerfinu sem endurspeglast fyrst og fremst í miklu atvinnuleysi, lítilli fjárfestingu og lágri verðbólgu.

Lykillinn að áþreifanlegum efnahagsbata og aukinni atvinnu liggur í vexti fjárfestingar. Nýbirt áætlun Seðlabankans um afnám gjaldeyrishafta gerir ráð fyrir því að fjárfesting aflandskróna í íslensku atvinnulífi verði fyrst heimiluð þegar aðgengi ríkissjóðs að erlendum fjármálamörkuðum sé tryggt. Líklegt er að einhver töf verði á því í ljósi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave samningana.

Vextir Seðlabankans eru nú í sögulegu lágmarki og því er líklegt að frekari skref til lækkunar verði minni en í upphafi vaxtalækkunarferlisins. Hagfræðideild Landsbankans metur að við núverandi aðstæður sé svigrúm til vaxtalækkunar allt að 0,75% en í ljósi varfærins tóns í yfirlýsingum peningastefnunefndar fyrr á árinu spáum við 0,25% lækkun að þessu sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×