Viðskipti innlent

Lögmannsstofur semja við Skýrr um hýsingu og rekstur

Gestur G. Gestsson (vinstra megin) og Guðmundur Siemsen handsala hér samning Advel, Fulltingis, Gjaldheimtunnar og Momentum við Skýrr um heildræna útvistun upplýsingatækni.
Gestur G. Gestsson (vinstra megin) og Guðmundur Siemsen handsala hér samning Advel, Fulltingis, Gjaldheimtunnar og Momentum við Skýrr um heildræna útvistun upplýsingatækni.
Fjórar lögmannsstofur að Suðurlandsbraut 18 hafa samið við Skýrr um heildarlausn í hýsingu, rekstri og útvistun upplýsingatækni. Þetta eru Advel, Fulltingi, Gjaldheimtan og Momentum.

„Um er að ræða miðlæga hýsingu á öllu tölvuumhverfi og hugbúnaðarlausnum lögmannsstofanna fjögurra, þar á meðal Microsoft Dynamics NAV, DK hugbúnaði, innheimtukerfi, málaskrám og pósti,“ segir í tilkynningu frá Skýrr.

Þá segir að hýsing kerfanna verði í kerfisleiguhögun hjá Skýrr, en þannig fái starfsfólk lögmannsstofanna hnökralausan aðgang að eigin vinnuumhverfi, gögnum og hugbúnaði gegnum öruggt umhverfi, sem sé hýst, afritað og vaktað á miðlægum búnaði hjá Skýrr allan sólarhringinn.

„Við vorum að leita að traustum og öflugum hýsingaraðila og vildum á sama tíma gæta ítrustu hagkvæmni. Skýrr hefur áratugareynslu af hýsingu og kerfisleigu og uppfyllir strangar kröfur alþjóðlegra gæða- og öryggisstaðla um afköst, áreiðanleika og fagmennsku. Við höfum miklar væntingar til þessa nýja samstarfsaðila okkar og teljum að við séum þar í góðum höndum," segir Guðmundur Siemsen, meðeigandi hjá Advel.

„Þessar fjórar lögmannsstofur eru afskaplega framsæknir notendur upplýsingatækni. Þau gera miklar kröfur til samstarfsaðila sinna. Við lítum á það sem hraustlega áskorun og í raun tilhlökkunarefni að veita þeim fyrsta flokks þjónustu," segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Skýrr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×