Viðskipti innlent

Seðlabankinn tjáir sig ekki um AGS fundinn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Seðlabankastjórar ætla ekki að tjá sig um fundinn um helgina. Mynd/ Pjetur.
Seðlabankastjórar ætla ekki að tjá sig um fundinn um helgina. Mynd/ Pjetur.
Ákvörðun Seðlabanka Ísland um stýrivexti verður tilkynnt næstkomandi miðvikudag. Bankastjóri og seðlabankastjóri munu ekki tjá sig við fjölmiðla þangað til, hvorki um niðurstöðu fundar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um helgina né um önnur mál, samkvæmt upplýsingum úr bankanum.



Fundur fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var haldinn á laugardaginn. Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri var fulltrúi Íslands í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að þessu sinni og sótti fundinn. Að auki átti aðstoðarseðlabankastjóri fundi með matsfyrirtækjum og stjórnendum og starfsfólki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og sótti jafnframt ráðstefnu um fjármálastöðugleika og þjóðhagsvarnir. Fundina sóttu einnig Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra.

Árni Páll sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að viðhorf Breta og Hollendinga til Íslendinga eftir atkvæðagreiðsluna um Icesave hefði breyst. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn teldi eðlilegt að Icesave málið yrði leitt til lykta fyrir dómstólum. Hins vegar kom fram í fréttum RÚV í gær að Frans Weekers ráðherra í hollenska fjármálaráðuneytinu hefði lýst því yfir við Steingrím J. Sigfússon á fundi þeirra í gær að Íslendingar gætu ekki reitt sig á að Hollendingar styddu áfram samstarf AGS við Ísland.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×