Viðskipti innlent

New York Times: Leið Íslands gáfuleg

Bandaríska stórblaðið New York Times segir að sú leið sem Ísland hafi fetað í kreppunni líti æ gáfulegar út.

Þetta kemur fram í leiðara blaðsins sem ber fyrirsögnina: Leið Íslands eða Iceland´s Way. Leiðarahöfundur segir að stjórnvöld á Íslandi hafi ekki verið gáfaðri en önnur stjórnvöld. Íslendingar höfðu hinsvegar ekki efni á að bjarga bönkum sínum og því voru þeir látnir falla. Með því að taka ekki ábyrgð á bönkunum hafi kröfuhafar verið neyddir til þess að deila tapinu og sársaukanum með þjóðinni.

Leiðarahöfundurinn segir að Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geti lært af fordæmi Íslendinga. Nú þegar viðræður eru hafnar um neyðaraðstoð til Portúgal ættu fyrrgreindar stofnanir að gera sér grein fyrir því að skattborgarar geta ekki borið allan kostnaðinn af mistökum bankanna.

Fram kemur að staða Íslands nú, eftir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom til aðstoðar landinu, sé mun betri en Írlands, Grikklands og Portúgal eins og skuldatryggingaálög þessara þjóða sýni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×