Viðskipti innlent

Reykjavík bjóðast viðunandi vextir þrátt fyrir OR

Þokkaleg þátttaka var í skuldabréfaútboði Reykjavíkurborgar í fyrradag þar sem flokkurinn RVK 09 1 var í boði. Þannig bárust tilboð að fjárhæð 2,2 milljarðar króna á kröfu sem var á bilinu 3,90%-4,60%. Ákveðið var að taka tæplega helmingi tilboðanna, eða sem hljóðar upp á 1,1 milljarð króna á ávöxtunarkröfunni 3,93%.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að krafan sé þar með nokkru hærri en í síðasta útboði, en sem kunnugt er hafði Reykjavíkurborg þá ákveðið fyrirfram að hafna öllum tilboðum á hærri ávöxtunarkröfu en 3,75%.

„Við teljum engu að síður að Reykjavíkurborg megi vel una við þessa niðurstöðu, þá sérstaklega miðað við þær neikvæðu fréttir sem hafa verið í fjölmiðlum undanfarið um fjárþörf og erfiða fjárhagslega stöðu Orkuveitu Reykjavíkur,“ segir í Morgunkorninu.

Eftir útboðið er flokkurinn orðinn 10.720 milljónir króna að stærð, en heimilt er að stækka hann um 5 milljarða kr. til viðbótar á yfirstandandi ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×