Viðskipti innlent

Hagnaður Landsbankans 27,2 milljarðar í fyrra

Afkoma NBI hf. (Landsbankans) var jákvæð um 27,2 milljarða króna eftir skatta í fyrra. Arðsemi eigin fjár var 17,3%. Til samanburðar nam hagnaður ársins 2009 14,3 milljörðum króna og var arðsemi eigin fjár þá 10,0%.

Í tilkynningu segir að sérstök gjaldfærsla sé í reikningnum til að mæta dómum sem fallið hafa á árinu 2010 og snemma árs 2011 um lögmæti lánasamninga erlendra lána hjá bæði einstaklingum og fyrirtækjum. Hún nemur 18,1 milljarði króna.

Eiginfjárhlutfall Landsbankans er nú 19,5% og hefur hækkað um 4,6% á árinu. Núverandi eiginfjárhlutfall er þó vel umfram það 16% lágmark eiginfjárhlutfalls sem Fjármálaeftirlitið gerir kröfu um .

,,Landsbankinn tók miklum breytingum á árinu 2010 og er enn að breytast. Ný stefna bankans sem samþykkt var síðastliðið haust setur fram metnaðarfulla framtíðarsýn. Í henni er lögð áhersla á úrvinnslu skuldavanda heimila og fyrirtækja og að bæta þjónustu bankans til hagsbóta fyrir viðskiptavini," segir Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans.

„Við viljum tryggja ávinning af rekstri bankans bæði fyrir samfélag og eigendur og laða að honum úrvals starfsfólk. Markmiðið sem við vinnum eftir er skýrt; við viljum vera traustur samherji viðskiptavina í fjármálum og standa undir þeirri ábyrgð að vera Landsbankinn þinn."

Um stöðu bankans segir Steinþór: ,,Afkoman á árinu 2010 var góð og bankinn stendur styrkum fótum. Þrengingar og óvissa í efnahagsmálum eru viðvarandi og því er mikilvægt að Landsbankinn búi yfir miklum styrk, þannig að hann geti veitt öfluga fjármálaþjónustu og verið það hreyfiafl í samfélaginu sem starfsmenn hans hafa einsett sér að hann verði."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×