Viðskipti innlent

Kristín Guðmundsdóttir hættir sem forstjóri Skipta

Kristín Guðmundsdóttir, forstjóri Skipta, tilkynnti stjórn Skipta í gær að hún segði starfi sínu lausu frá og með deginum í dag. Kristín tók við starfi forstjóra Skipta í janúar síðastliðnum en áður var hún staðgengill forstjóra og fjármálastjóri félagsins frá 2003.

Samkvæmt tilkynningu mun Kristín að ósk stjórnar starfa áfram sem forstjóri þangað til annað hefur verið ákveðið. 

„Ég hef starfað hjá Símanum og Skiptum í átta ár. Á þeim tíma hefur fyrirtækið tekið miklum breytingum og mjög viðburðaríkur tími er að baki. Nú hafa Skipti skrifað undir samninga við lánveitendur og birt ársreikning fyrir árið 2010. Ég hef nú ákveðið að snúa mér að öðrum verkefnum og vil þakka samstarfsfólki mínu fyrir frábært samstarf og óska þeim og fyrirtækinu alls hins besta,“ segir Kristín í tilkynningunni.

 „Ég vil fyrir hönd stjórnar þakka Kristínu fyrir frábært starf í þágu félagsins á undanförnum árum. Hún hefur leikið lykilhlutverk við að stýra félaginu í þeim ólgusjó sem hefur einkennt rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja undanfarin misseri. Ég óska henni alls hins besta í þeim verkefnum sem hún tekur sér nú fyrir hendur,“ segir Skúli Valberg Ólafsson, stjórnarformaður Skipta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×