Viðskipti innlent

Skatturinn mun krefja starfsmenn bankanna um milljarða

Andri Ólafsson skrifar
Yfir 100 stjórnendur og lykilstarfsmenn Kaupþings og Glitnis munu á næstunni fá milljarða endurálagningu frá skattyfirvöldum vegna söluréttar. Skattyfirvöld telja að nýr hæstaréttardómur taki af vafa um reikniaðferðir í málum sem þessum.

Í málinu var tekist á um með hvaða hætti sé rétt að skattleggja hagnað af kaup og söluréttarsamningum sem stjórnendur og lykilstarfsmenn gerði við bankana fyrir hrun.

Þó að ríkiskattstjóri hafi nú á fimmtudag tapað máli gegn Bjarka Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Kaupþingi á fimmtudaginn, og þurfi að endurgreiða honum 45 milljónir, segja heimildir fréttastofu að skattyfirvöld líti svo á að í dómi hæstaréttar séu að finna leiðbeiningar um hvernig skuli skattlegja hagnað af þessum toga.

Heimildir fréttastofu herma að á grundvelli hins nýja dóms munu yfir 100 stjórnendur og lykilstarfsmenn Kaupþings og Glitnis fá endurálagningu vegna söluréttarsamninga á næstunni.

Endurálagningin byggir á þeirri niðurstöðu að skattleggja skuli sem laun mismuninn á markaðsverði hlutabréfa sem starfsmenn fengu með samningum og því kaupréttarverði sem í gildi var þegar samningarnir runnu út. En ekki þegar samningarnir voru gerðir eins og upphaflega var reynt.

Samanlagðar fjárhæðir í málum þessara rúmlega 100 einstaklinga sem fá endurálagningu á næstunni hlaupa á milljörðum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×