Viðskipti innlent

Hagstofan telur að útflutningur aukist um 2,3% í ár

Útflutningshorfur hafa batnað nokkuð frá nóvemberspánni. Árið 2011 er því spáð að útflutningur aukist um 2,3%. Reiknað er með að útflutningur sjávarafurða verði svipaður og árið 2010 en áður var spáð um 2% samdrætti, en þessa aukningu má m.a. rekja til aukins loðnukvóta.

Þetta kemur fram í nýrri hagspá Hagstofunnar. Þar segir að áætlað er að útflutningur vegna stóriðju verði óbreyttur milli ára. Gert er ráð fyrir að útflutningur utan stóriðju og sjávarútvegs aukist töluvert á árinu. Mikil gróska hefur verið í útflutningi annarra vara en sjávarútvegs og stóriðju auk þess sem þjónustuútflutningur jókst umtalsvert á síðasta ári þótt eldgosið í Eyjafjallajökli hafi truflað ferðaþjónustu á síðasta sumri.

Horfur eru á frekari vexti þjónustuútflutnings á þessu ári, sérstaklega í ferðaþjónustu þar sem neikvæð áhrif vegna Eyjafjallajökuls eru ekki lengur inni í myndinni.

Á næstu árum er gert ráð fyrir nokkuð stöðugri aukningu útflutnings en veikt raungengi á spátímanum ætti að styðja við útflutning. Árið 2012 er spáð 2,4% vexti útflutnings og árið 2013 er reiknað með 2,8% vexti, en á því ári ætti kísilverksmiðjan í Helguvík að hefja útflutning.

Árið 2011 er gert ráð fyrir að innflutningur aukist um 3,4%. Það er nokkur aukning miðað við nóvemberspána en það má m.a. rekja til þess að reiknað er með meiri innflutningi þjónustu vegna ferðalaga Íslendinga erlendis. Árið 2012 er gert ráð fyrir að innflutningur aukist um 4,9% í samræmi við aukningu þjóðarútgjalda á því ári en árið 2013 er spáð 4,8% vexti innflutnings.

Vöruskiptajöfnuður var 10,6% af landsframleiðslu árið 2010 en í þjóðhagsspánni er gert ráð fyrir að hann lækki lítillega yfir spátímann vegna aukins innflutnings. Á þessu ári eru horfur á að hann verði 10,4% af landsframleiðslu en lækki síðan í 9,4% árið 2012 og verði 8–8,5% af landsframleiðslu út spátímann.

Viðskiptajöfnuður var neikvæður um -7,8% árið 2010. Reiknað er með að viðskiptajöfnuður verði áfram neikvæður út spátímann en hins vegar ber að taka tillit þess að þáttatekjurnar í viðskiptajöfnuði innihalda vaxtagreiðslur banka í slitameðferð en gera má ráð fyrir að stór hluti þeirra greiðslna verði afskrifaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×