Viðskipti innlent

Metfjöldi ferðamanna þriðja mánuðinn í röð

Alls fóru 26.624 erlendir ferðamenn frá landinu um Leifsstöð í mars síðastliðnum sem er lítilleg aukning, eða um 0,9%, frá því í mars í fyrra. Þrátt fyrir að aukningin varð ekki meiri að sinni þá er líklegt að þetta sé fjölmennasti marsmánuður frá upphafi hvað erlenda ferðamenn varðar og þar með er þetta þriðji metmánuðurinn í röð í þessum efnum.

Fjallað er um málið í morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að brottfarir erlendra ferðamanna séu nú komnar upp í 71.735 á fyrsta fjórðungi ársins sem er aukning upp á 9,6% frá sama tímabili í fyrra.

Er því ekki annað hægt að segja miðað við þessa framvindu en að árið fari vel af stað hjá íslenskri ferðaþjónustu. Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir gesta frá landinu um Leifsstöð en það var einmitt sú stofnun sem sendi frá sér fréttatilkynningu í gærdag.

Frá áramótum talið hefur ferðamönnum frá Norður Ameríku fjölgað mest en þeir voru um þriðjungi fleiri á fyrsta fjórðungi ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Aukningin er næstmest á ferðamönnum frá Mið- og Suður Evrópu á þessu tímabili og eru þeir nú um fimmtungi fleiri miðað við sama tímabil í fyrra.

Ferðamönnum frá Norðurlöndum hefur fjölgað um 7,2% á sama tímabili. Ferðamönnum frá Bretlandi fjölgar jafnframt lítillega, eða sem nemur um 1,8%, á tímabilinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×