Viðskipti innlent

FME veitir Auði Capital auknar starfsheimildir

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur veitt Auði Capital hf. auknar starfsheimildir sem verðbréfafyrirtæki. Fjallað er um málið á vefsíðu eftirlitsins.

Þar segir að upphaflegt starfsleyfi Auðar Capital frá árinu 2008 tók til viðskipta og þjónustu með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti sem felast í eignastýringu og fjárfestingarráðgjöf.

Eftir veitingu aukinna starfsheimilda tekur starfsleyfi Auðar Capital hf. einnig til umsjónar með útboði fjármálagerninga án sölutryggingar og töku verðbréfa til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

Til viðbótar við ofangreinda þjónustuþætti tekur endurútgefið starfsleyfi Auðar Capital hf. til vörslu og stjórnunar í tengslum við einn eða fleiri fjármálagerninga fyrir reikning viðskiptavinar, þ.m.t. vörslu fjármálagerninga og tengdrar þjónustu, svo sem vegna fjármuna eða trygginga.

Þá nær leyfið einnig til veitingar lánsheimilda, ábyrgða eða lána til fjárfestis þannig að hann geti átt viðskipti með einn eða fleiri fjármálagerninga ef verðbréfafyrirtæki sem veitir lánsheimildina eða lánið annast viðskiptin, ráðgjafar til fyrirtækja um uppbyggingu eigin fjár, stefnumótunar og skyldra mála og ráðgjafar og þjónustu varðandi samruna fyrirtækja og kaupa á þeim. Einnig þjónustu í tengslum við sölutryggingu og gjaldeyrisþjónustu ef umrædd viðskipti eru liður í fjárfestingarþjónustu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×