Viðskipti innlent

Fasteignaveltan jókst um 68% í borginni milli ára í mars

Alls var 409 samningum um fasteignir þinglýst í höfuðborginni í mars síðast liðnum. Þetta er rúmlega 68% aukning á fjölda samninga miðað við mars í fyrra.

Þetta kemur fram á vefsíðu Þjóðskrár Íslands. Þar segir að heildarvelta í mars hafi numið 11,5 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning var 28,1 milljón króna. Viðskipti með eignir í fjölbýli námu 7,6 milljörðum króna , viðskipti með eignir í sérbýli 3,2 milljörðum króna og viðskipti með aðrar eignir 0,7 milljörðum króna.

Þegar mars er borinn saman við febrúar s.l. fjölgar kaupsamningum um 46,1% og velta eykst um 45,2%. Þegar mars er borinn saman við mars í fyrra hefur veltan aukist um tæp 62%.

Þegar mars 2011 er borinn saman við mars 2010 fjölgar kaupsamningum um 68,3% og velta eykst um 61,8%. Í mars 2010 var 243 kaupsamningum þinglýst, velta nam 7,1 milljarði króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning 29,2 milljónir króna.

Makaskiptasamningar voru 41 í mars 2011 eða 10,6% af öllum samningum. Í febrúar 2011 voru makaskiptasamningar 25 eða 9,6% af öllum samningum. Í mars 2010 voru makaskiptasamningar 59 eða 26,7% af öllum samningum. Makaskiptasamningur er þegar hluti kaupverðs er greiddur með annarri fasteign. Upplýsingar um makaskiptasamninga eiga eingöngu við um íbúðarhúsnæði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×