Viðskipti innlent

AGS þarf mögulega að gefa afslátt í apríl

Fimmta endurskoðunin á áætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) er framundan í þessum mánuði. Svo virðist sem AGS þurfi að gefa afslátt af skilyrðum sínum fyrir því að samþykkja þessa endurskoðun.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að í febrúar síðastliðnum tilkynnti sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi að stjórn AGS myndi fjalla um fimmtu endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands á fundi sínum í apríl. Efnahagsáætlun AGS og stjórnvalda er nú rúmlega hálfnuð og eftir eru þrjár endurskoðanir. Áætlað er að áætlunin renni sitt skeið í ágúst næstkomandi en vel gæti farið svo að að einhver töf verði á því að mati okkar.

Ýmis skilyrði sem voru sett til þess að fimmta endurskoðunin eigi fram að ganga og hafa sum verið uppfyllt en önnur ekki. Þau sem hafa verið uppfyllt er að ríkisstjórnin hefur samþykkt nýja áætlun um afléttingu gjaldeyrishafta, gengið hefur verið frá eiginfjárframlagi til Íbúðalánasjóðs (ÍLS) og framtíð SpKef hefur verið ráðin. Hins vegar hefur endurfjármögnun sparisjóða enn ekki verið að fullu lokið, auk þess sem tveggja ára áætlun um endurskipulagningu sparisjóðakerfisins hefur ekki litið dagsins ljós.

Þá hefur lagafrumvarp um að færa ÍLS að fullu undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins ekki enn litið dagsins ljós, en leggja átti það fram fyrir síðustu mánaðamót.

„Töluverðar líkur virðast á því að ekki verði öll skilyrði fimmtu endurskoðunar uppfyllt fyrir páskaleyfi að tveimur vikum liðnum. Hvort AGS mun veita afslátt af þeim skilyrðum sem út af standa eða hvort endurskoðunin frestast kemur væntanlega í ljós innan tíðar," segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×