Viðskipti innlent

Nýtt nafn á MP banka og breskir auðkýfingar meðal eigenda

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Skipt verður um nafn á MP banka og hann verður eini bankinn á Íslandi sem ekki verður í eigu erlendra kröfuhafa eða ríkisins. Afar fjölbreyttur hópur fjárfesta tekur við, m.a breskir auðkýfingar með lögheimili á aflandseyjum og Skúli Mogensen.

MP banki uppfyllti ekki skilyrði Fjármálaeftirlitsins (FME) um eigið fé um síðustu áramót og gaf FME bankanum tímafresti til að bregðast við. Eitt af úrræðunum sem voru í boði til að bæta úr því var að fá nýja fjárfesta að borðinu. Fyrirtækinu verður skipt upp og Margeir Pétursson, stofnandi bankans, hverfur úr hluthafahópnum en mun halda áfram utan um félag bankans í Úkraínu.

Viðskiptablaðið í dag greindi frá því í dag að meðal nýrra eigenda MP banka yrðu Rowland-fjölskyldan breska sem keypti Kaupþing í Lúxemborg og breytti nafninu í Banque Havilland. Þá er Joe Lewis, breskur auðkýfingur með lögheimili á Bahama-eyjum, meðal nýrra fjárfesta í MP banka, en hann var viðskiptavinur Kaupþing Singer & Friedlander í Lundúnum sem fjármagnaði að hluta kaup hans á breska knattspyrnufélaginu Tottenham Hotspurs. Verður samanlagður eignarhlutur erlendu fjárfestanna í MP banka tuttugu prósent og verður Rowland-fjölskyldan þar af með tíu prósent.

Skúli Mogensen mun halda utan um virkan eignarhlut í MP banka eftir breytingarnar, sem þýðir að hann verður með tíu prósent eða meira. Hann snýr nú aftur í íslenskt viðskiptalíf eftir níu ár erlendis, en hann hefur aðallega sinnt fjárfestingum í Kanada í háteiknigeiranum.

Skúli sagði við fréttastofu í dag að hann hefði kynnt tækifærið að fjárfesta í MP banka fyrir Rowland-fjölskyldunni sem hefði svo fengið Joe Lewis að borðinu. Fyrrverandi stjórnendur Kaupþings sverja af sér öll tengsl við endurfjármögnun MP banka.

„Okkur finnst skelfilegt að hugsa til þess að allar fjármálastofnanir landsins séu annað hvort í eigu skilanefnda sem eru í eigu erlendra kröfuhafa eða ríkisins. MP banki verður eini sjálfstæði banki landsins sem ekki hefur þegið krónu í fyrirgreiðslu eða styrki frá ríki eða Seðlabanka," segir Skúli Mogensen.

Verzlunarbankanum kastað fram

Samkvæmt heimildum fréttastofu verður skipt um nafn og merki á MP banka og farið í ímyndarherferð. Eitt af þeim nöfnum, sem fréttastofa hefur upplýsingar um að hafi verið rætt sem nafn á hinum nýja banka er Verzlunarbankinn.

Gunnar Þ. Andersen, forstjóri FME, sagði við fréttastofu að FME hefði ekki sett sig upp á móti því að hinir nýju fjárfestar fengju heimild til að halda utan um virkan eignarhlut í MP banka, en þeir hafa undirgengist strangt ferli hjá FME í aðdraganda kaupanna. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×