Viðskipti innlent

OR þarf að kaupa gjaldeyri fyrir 10 milljarða í ár

Orkuveita Reykjavíkur (OR) verður með mikil umsvif í gjaldeyriskaupum á markaðinum hérlendis á næstu árum. Bara í ár má búast við að OR þurfi að kaupa gjaldeyri fyrir 10 milljarða kr.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að OR þurfi að reiða fram ríflega 20 milljarða kr. í vaxtagreiðslur og afborganir langtímaskulda á yfirstandandi ári samkvæmt framsetningu Datamarket á áætlun fyrirtækisins.

Á móti koma svo hinar nýju lántökur frá eigendum sem greint var frá í gærdag og væntanlega einhver framlenging innlendra lána. Samkvæmt ársreikningi OR námu erlendar skuldir í árslok 2010 u.þ.b. 88% af heildarskuldum félagsins. Á móti er aðeins um fimmtungur tekna félagsins frá stóriðju í erlendri mynt.

„Má því gróflega áætla að fyrirtækið þurfi að kaupa jafnvirði u.þ.b. 10 ma.kr. í erlendum gjaldeyri til þess að greiða til erlendra lánveitenda þetta árið," segir í Morgunkorninu.

„Á næsta ári nema áætlaðar greiðslur OR vegna afborgana langtímaskulda og vaxtagreiðslna svo 19 milljörðum kr. og árið 2013 er samsvarandi upphæð 36 milljarðar kr. Líklegt virðist því að fyrirtækið verði umsvifamikill kaupandi gjaldeyris á markaði næstu árin, a.m.k. þar til aðgengi að erlendri lánsfjármögnun batnar að nýju."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×