Viðskipti innlent

Landinn dregur úr stórkaupum og utanlandsferðum

Íslenskir neytendur eru síður til þess líklegir að ráðast í stórkaup nú en þeir hafa verið síðasta árið. Þetta má sjá úr niðurstöðum úr ársfjórðungslegum mælingum Capacent Gallup á fyrirhuguðum stórkaupum neytenda sem birtar voru í gær samfara Væntingavísitölu Gallup.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þannig lækkaði vísitalan um fyrirhuguð stórkaup um 4,5 stig frá síðustu mælingu í desember og mælist nú 47,9 stig. Er gildi hennar nú lítið eitt hærra en það var í fyrra en þá mældist vísitalan 46,1 stig.

Vísitalan fyrir fyrirhuguð stórkaup er meðaltal fyrir vísitölur bifreiðakaupa, húsnæðiskaupa og kaupa á utanlandsferðum. Allar þessar þrjár vísitölur lækka frá mælingunni í desember, en þó mismikið. Í stigum talið var lækkunin mest á vísitölunni fyrir utanlandsferðir, sem mælir hversu líklegt er að einstaklingar komi til með að ferðast til útlanda á næstu 12 mánuðum. Á milli desember og mars fór vísitalan úr 133,4 stigum í 122,7 stig og er gildi hennar þar með svipað og það var í mars í fyrra. Ef marka má þessa vísitölu virðist því hafa dregið þó nokkuð úr ferðagleði landans frá því í haust, en þessi vísitala hefur hæst farið í 136,4 stig frá hruni sem var í september í fyrra.

Sem kunnugt er hafa tölur Ferðamálastofu um brottfarir Íslendinga um Leifsstöð verið til marks um að stöðugt fleiri Íslendingar láti undan útþrá sinni og haldi erlendis. Má hér nefna að á fyrstu tveimur mánuðum ársins höfðu um 42.400 Íslendingar haldið erlendis sem er aukning upp á tæp 15% frá sama tímabili í fyrra.

„Ef marka má þessa vísitölu Capacent þá gæti eitthvað dregið úr þessari aukningu á næstu mánuðum en engu að síður höllumst við enn að því að landinn verði nokkuð meira á faraldsfæti nú í ár en hann var í fyrra, nema eitthvað verulegt bakslag verður á efnahagsbatann hér á landi eða þá að krónan veikist verulega. Sem kunnugt er þá hefur krónan veikst þó nokkuð á síðustu mánuðum en hefur þó engu að síður verið sterkari það sem af er þessu ári en á sama tímabili í fyrra,“ segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×