Viðskipti innlent

Arion banki býður BM Vallá til sölu

Ákveðið hefur verið að bjóða til sölu allt hlutafé í BM Vallá, en fyrirtækið er í eigu Eignabjargs, dótturfélags Arion banka. Upphaf söluferlis á B.M. Vallá ehf. verður tilkynnt formlega í dag.

Í tilkynningu segir að frestur til að skila óskuldbindandi tilboðum í félagið er til 2. maí. Í kjölfarið munu valdir fjárfestar fá aðgang að frekari upplýsingum um félagið áður en óskað verður eftir bindandi tilboðum og gengið til endanlegra samninga um kaup og sölu.

Söluferlið er opið öllum fjárfestum sem uppfylla skilyrði um viðeigandi þekkingu og fjárhagslegan styrk, en gert er ráð fyrir að allt hlutafé í félaginu verði selt í einu lagi.

Áhugasömum aðilum er bent á að hafa samband við Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka sem hefur umsjón með söluferlinu.

Bankinn tók yfir rekstur fyrirtækisins árið 2010 og hefur það gengið í gegnum róttæka endurskipulagningu. Kostnaðaruppbygging fyrirtækisins hefur verið löguð að núverandi efnahagsástandi en framleiðslugeta þess getur engu að síður annað meðalári án þess að til mikilla fjárfestinga þurfi að koma. BM Vallá er eitt stærsta framleiðslufyrirtæki innan byggingariðnaðarins á Íslandi og er vörumerki þess sterkt.

Fyrirtækið starfar á sviði steypu-, hellu-, eininga- og múrframleiðslu sem og vikurvinnslu. Þó að félagið hafi gengið í gegnum umfangsmiklar skipulagsbreytingar hefur verið staðið vörð um mikla sérfræðiþekkingu fyrirtækisins. BM Vallá er því í stakk búið til að vera  áfram í fararbroddi á markaði  og viðhalda sterkri ímynd varðandi vöru- og þjónustugæði. Á undanförnu ári hefur verið lögð áhersla á vöruþróun sem mun styrkja stöðu félagsins á Íslandi en þó sérstaklega útflutning þess.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×