Viðskipti innlent

Sameinaði lífeyrissjóðurinn skilaði 2% raunávöxtun í fyrra

Góður viðsnúningur varð í rekstri Sameinaða lífeyrissjóðsins á árinu 2010. Nafnávöxtun tryggingadeildar sjóðsins var 4,6% á árinu, sem jafngildir 2,0% raunávöxtun.

Þetta kemur fram í auglýsingu frá sjóðnum sem birt var um helgina. Þar segir að ávöxtun sjóðsins var mun betri en næstu tvö ár á undan og skiluðu þær aðgerðir sem gripið var til á árinu sér að fullu í bættri tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins.

Virkum sjóðfélögum hélt hins vegar áfram að fækka nokkuð, sem endurspeglar þrengingar í þeim greinum sem hluti þeirra starfar við, ekki síst í byggingariðnaðinum.

Heildareignir sjóðsins námu 105,4 milljörðum króna í árslok og höfðu hækkað um 6,2 milljarða króna milli ára.

Tryggingafræðileg staða sjóðsins í árslok 2010 var -5,9%, sem er betri staða en árið áður og er innan þeirra heimilda sem lög leyfa án þess að grípa þurfi til réttindabreytinga. Í ljósi jákvæðrar þróunar í rekstri sjóðsins á síðasta ári eru ekki tilefni til endurskoðunar á lífeyrisréttindum á næsta ársfundi að mati stjórnar sjóðsins.

Alls voru eignir séreignardeildar 4.825 milljónir króna í árslok 2010 og hækkuðu um 362 milljónir króna frá fyrra ári. Lífeyrisgreiðslur úr deildinni voru áfram miklar vegna laga um tímabundna heimild til úttektar séreignar og námu 437 milljónum króna samanborið við 755 milljónir króna árið 2009. Rétthafar í séreignardeild voru 9.053 og fækkaði þeim um 183 frá fyrra ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×