Viðskipti innlent

Áfram mikið tap af rekstri Félagsbústaða

Tap af rekstri Félagsbústaða nam 1.871 milljón kr. í fyrra miðað við 3.154 milljóna kr. tap árið á undan. Eigið fé Félagsbústaða í árslok 2010 nam 5,7 milljörðum kr. og hefur lækkað um 1,8 milljarða kr. milli ára. Eiginfjárhlutfall var 18% í árslok 2010 miðað við 23% árið 2009.

Þetta kemur fram í tilkynningu en Félagsbústaðir, sem eru hlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar, eiga og reka félagslegt leiguhúsnæði sem úthlutað er af Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Markmið félagsins er að starfa í þágu almannaheilla og skal rekstur þess vera sjálfbær.

Rekstrartekjur Félagsbústaða h.f. á árinu 2010 námu 2.399 milljónum kr., sem er 6% aukning tekna frá árinu á undan. Aukningin stafar annars vegar af verðlagshækkun leigu og hins vegar betri nýtingu íbúða í leigu á árinu 2010.

Á árinu 2010 voru keyptar 11 íbúðir og seldar jafnmargar. Fjöldi íbúða var því óbreyttur frá fyrra ári eða 2154 íbúðir sem skiptast í 1844 almennar leiguíbúðir, aðallega stakar íbúðir í fjölbýlishúsum víðsvegar um borgina og 310 þjónustuíbúðir aldraða ásamt tilheyrandi þjónusturýnum í 5 þjónustuíbúðakjörnum.

Íbúðaeign félagsins í árslok 2010 nam sem svarar 18 íbúðum á hverja 1000 íbúa í Reykjavík, eða 4,6% af öllu íbúðarhúsnæði í borginni.

Í tilkynningunni segir að aðstæður á leigumarkaði undanfarin tvö ár, með stórauknu framboði leiguíbúða einkum á fyrsta ársfjórðungi 2009, hafa orðið til þess að leiguverð á almennum leigumarkaði hefur lækkað verulega frá því sem áður var. Að öllum líkindum mun almennt leiguverð fara aftur hækkandi ef spár um aukin umsvif á íbúðamarkaði ganga eftir. Ekki er ósennilegt að slík þróun leiði til aukinnar eftirspurnar eftir félagslegu leiguhúsnæði nema áform um eflingu leigumarkaðarins gangi eftir með stofnun leigufélaga á faglegum grunni m.a. með þátttöku fjársterkra aðila í samfélagslegum tilgangi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×