Viðskipti innlent

Ekki útilokað að kaupmáttur launa rýrni áfram

Greining Íslandsbanka telur að ekki sé útilokað að kaupmáttur launa muni rýrna áfram á næstunni. Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningarinnar þar sem fjallað er um launamælingar Hagstofunnar sem birtar voru í morgun.

Kaupmáttur launa rýrnaði um 1,0% milli janúar og febrúar sem kemur til vegna 1,2% hækkunar á vísitölu neysluverðs á tímabilinu á sama tíma og launavísitalan hækkaði um einungis 0,2%. Þetta er í fyrsta sinn síðan í júní í fyrra sem kaupmáttur launa dregst saman á milli mánaða.

„Ekki er loku fyrir það skotið að kaupmáttur komi til með að rýrna enn frekar næsta kastið milli mánaða, þá ef þróun verðbólgunnar verður á svipuðu róli og við spáum og þróun launa verður svipuð og hún hefur verið að undanförnu,“ segir í Morgunkorninu.

„Þessi framvinda er þó háð því hvenær kjarasamningar nást og samningsbundnar launahækkanir koma til framkvæmda. Á síðustu tólf mánuðum hefur kaupmáttur launa aukist um 2,2% og dregur nokkuð úr tólf mánaða taktinum frá fyrri mánuði en hann var 2,5% í janúar.“

Þá segir að...“ þrátt fyrir að staðan nú sé svo að margir hópar launþega eru með lausa kjarasamninga teljum við að það sé ekki margt í efnahagsumhverfinu sem bendi til þess að launaþrýstingur hér á landi verði mikill á vinnumarkaði næsta kastið.

Endurspeglar það hvort tveggja ástandið hjá hinu opinbera sem hefur staðið í gríðarlegum aðhaldsaðgerðum sem og hjá einkageiranum, en rekstrarumhverfið hjá mörgum fyrirtækjum er enn afar erfitt sem m.a. má sjá með því að rýna í tölur um fjölda gjaldþrota fyrirtækja. Þessi framvinda gerir augljóslega samningsstöðu launþega veikari en ella.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×